Handbók skólans

Sérstakir dagar   Ágúst   Starfsdagar Kennarar hefja vinnu á endurmenntunarnámskeiđum og fimm starfsdögum upp úr miđjum ágúst.   Opiđ hús Á fyrsta

Handbók skólans

Sérstakir dagar

 

Ágúst

 

Starfsdagar

Kennarar hefja vinnu á endurmenntunarnámskeiðum og fimm starfsdögum upp úr miðjum ágúst.

 

Opið hús

Á fyrsta skóladeginum er opið hús milli kl. 10:00 og 14:00.  Á þeim tíma koma foreldrar, þegar þeim hentar,  með börn sín í skólann til að hitta umsjónarkennarann, fá stunda-töflur, skólareglur, bækur og fl.  Nemendur sem eru að hefja skólagöngu mæta allir á sama tíma eða klukkan 11:00 ásamt forráðamönnum.  Heitt er á könnunni og djús í boði fyrir börnin.

 

Sundkennsla

Í lok ágúst fer fram sundkennsla og stendur hún yfir í fimm daga.  Nemendur taka stigspróf.

 

September

 

Haustganga

Að hausti er farið í gönguferð með alla nemendur. Þeim er skipt í tvo hópa eftir aldri og getu og fara tveir til þrír kennarar með hverjum hópi og ákveða þeir hvert skuli fara. 

 

Berjaferð

Umsjónarkennarar fara með nemendur í berjamó og uppskeran m.a. nýtt til sultugerðar í heimilisfræði.

 

Kartöfluupptaka

Nemendur Yngsta stigs taka upp kartöflur sem vonandi hafa sprottið af útsæði síðasta vors.  Uppskeran nýtt í heimilisfræði og heima við.

 

Kennaraþing

Starfsdagur kennara í september er nýttur til að fara á kennaraþing KSA.  Nemendur eru í fríi þann dag.

 

 

Samræmd próf í 4., 7 . og 10. bekk

Nemendur 4. og 7. bekkjar taka samræmd próf í íslensku og stærðfræði en nemendur 10. bekkjar taka þar að auki próf í ensku.  Skipuleggja þarf afleysingar og annað í kringum þá daga.

 

Sumarbústaðaferð

Árið sem ekki er farið í skólaferðalag, fara nemendur Elsta stigs í sumarbústaðarferð og gista eina nótt.  Tveir kennarar fylgja með.  Foreldarar aðstoða við að koma börnum á áfangastað og sækja, sé þess óskað.

 

 

 

Október

 

 

Norræna skólahlaupið

Ýmist er hlaupið 2,5 km, 5 km eða 10 km eftir aldri og getu.  Nemendur 1. – 2. bekkjar hlaupa 2,5 km, nemendur 3. – 5. bekkjar velja 2,5 eða 5 km.  Nemendur 6. – 10. bekkjar velja 5 eða 10 km.

Íþróttakennari skipuleggur hlaupið og fær aðra kennara sér til aðstoðar.  Boðið upp á ávaxtadrykk að hlaupi loknu.

 

Tónlist fyrir alla

Þekktir tónlistarmenn halda tónleika fyrir alla nemendur skólans á skólatíma.  Skipulag og efni til undirbúnings er sent til tónlistarkennara sem undirbýr nemendur og kennara.

 

Foreldrasamtöl

Fyrir foreldrasamtöl sem haldin eru í október, svara nemendur og foreldrar leiðsagnar-mati á Mentor.is.  Jafnframt svarar kennari samskonar spurningalista og þeir bornir saman í samtalinu.

 

 

Foreldravika

Forráðamenn og nánasta skyldfólk er sérstaklega boðið velkomið í skólann þessa viku.  Vikan hefst með kynningarfundum fyrir foreldra hvers stigs þar sem heimasíða skólans er kynnt, farið er yfir agareglur o.fl.  Þeir foreldrar sem ekki mæta eru hvattir til að kynna sér vefinn.  Kennarar og nemendur halda sínu striki og mega foreldrar koma inn í hvaða kennslustund sem er.  Kennarar hafa ekki próf þessa viku.

 

 

Nóvember

 

Lego

Stefnt er að þátttöku í LEGO-kepppninni en það veltur þó á áhuga nemenda.

 

Árshátíð

Árshátíð skólans hefur verið haldin undanfarin ár um miðjan nóvember og hefur það reynst heppilegur tími.  U.þ.b. einni og hálfri viku fyrr byrja nemendur að æfa.  Nemendum í samráði við umsjónarkennara eru veittar frjálsar hendur í efnisvali nema að um sérstakt þemaverkefni sé að ræða.  Selt er inn á árshátíðina og rennur ágóðinn til ferðahóps, enda sér hann um veitingar.

 

 

Dagur íslenskrar tungu

Á þessum degi hefst formlega Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk.  Íslenskukennarar skipuleggja líka sérstök verkefni, fara t.d. með nemendur í heimsókn til annarra bekkja  með upplestur, stutta leikþætti eða eitthvað slíkt.

 

 

 

 

 

Desember

 

Jólaskreyting

Fyrsta miðvikudag í desember er skólinn skreyttur með ljósum, gluggmyndum og Jóla-sveinalandið sett upp.  Árlega skreytir 6. bekkur jólatréð.

 

Jólaföndur

Undanfarin ár hefur foreldrafélag skólans staðið fyrir jólaföndri í byrjun desember.  Fyrirkomulag er misjafnt frá ári til árs og greiða nemendur vægt gjald sem fer upp í efniskostnað.  Hressing í boði.

 

Litlu  jólin

Litlu jólin eru síðasta dag fyrir jólafrí.  Dagurinn hefst með hefbundinni kennslu fram að hádegi en klukkan 17:00 mæta nemendur í sínu fínasta pússi og hafa með sér einn lítinn jólapakka hver.  Umsjónarkennarar fara með sína nemendur inn í bekkjarstofur og þar lesa þeir jólasögur, spjalla og drekka kakó og borða kökur.  Að því loknu mæta allir á sal, dregið er í umferðargetraun og bókaverðlaun afhent, farið er í ýmsa leiki og að lokum dansa allir í kringum jólatréð og gjafir eru afhentar.  Jólasveinar mæta að sjálfsögðu með gotterí í poka.

Tónlistarkennari, eða aðrir liðtækir tónlistarmenn sjá um tónlistina.

 

 

Janúar

 

Starfsdagur

Kennarar undirbúa vorönnina.

 

Námsmatsvika

Námsmat í flestum greinum, ýmist með prófum eða mati á stöðu nemenda.

 

Foreldrasamtöl

Fyrir foreldrasamtöl sem haldin eru í fyrstu viku í nóvember, svara nemendur og foreldrar leiðsagnarmati á Mentor.is.  Jafnframt svarar kennari samskonar spurningalista og þeir bornir saman í samtalinu.

 

Sjálfsmat

Skil á sjálfsmati haustannar.

 

Febrúar

 

Bolludagur

Nemendur í ferðahóp selja bollur til einstaklinga og fyrirtækja í sveitarfélaginu.  Á þessum degi er leyfilegt að koma með bollur í nesti.

 

Öskudagur

Óhefðbundinn dagur í samvinnu við leikskólann Balaborg.  Kenndar tvær fyrstu kennslustundirnar en eftir fyrri frímínútur er marserað í íþróttahúsið þar sem farið er í leiki.  Foreldrafélög grunnskólans og leikskólans leggja til nammi og „kött.“  Nemendur og starfsfólk mæta í grímubúningum.

 

 

Mars

Foreldravika

Forráðamenn og nánasta skyldfólk er sérstaklega boðið velkomið í skólann, þessa viku.  Kennarar og nemendur halda sínu striki og mega foreldrar koma inn í hvaða kennslustund sem er.  Kennarar hafa ekki próf þessa viku.

 

 

Stóra upplestrarkeppnin

Undankeppnin fer fram heima í héraði.  Dómarar innan og utan skólans fengnir til að dæma.  Athöfnin fer fram á sal skólans og er foreldrum viðkomandi nemenda boðið að horfa á.  Allir nemendur skólans koma einnig til að horfa.  Muna þarf eftir tónlistar- eða skemmtiatriðum á meðan dómarar bera saman bækur sínar.

 

Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíðin fer yfirleitt fram í Fjarðabyggð eða á Breiðdalsvík.

 

Skólahreysti

Árlega taka fjórir nemendur á elsta stigi þátt í keppninni Skólahreysti sem haldin er í fjórðungnum.

 

Apríl

 

Keppnisdagar

Fyrstu kennsluviku í apríl fer fram keppni sem er í því fólgin að nemendum frá 6.–10. bekk er blandað og síðan skipt í hópa.  Það sama er gert með 1.–5. bekk. Síðan fá hóparnir verkefni sem kennarar hafa útbúið og vinnur hver hópur að einu verkefni í eina – tvær klst. og fer svo í næsta verkefni.

Kennarar vinna úr verkefnum og meta.  Uppskeruhátíð er svo á þriðja keppnisdegi. Þá fer framhæfileikakeppni, danskeppni eða eitthvað slíkt. Í lokin er verðlaunaafhending.  Liðin með flest stig í hvorum aldurshópi fá viðurkenningu og öllum þátttakendum er boðið til pizzuveislu á Brekkunni.  Veitt eru sérstök háttvísiverðlaun til þess liðs sem er prúðast.  Gestum boðið ef þurfa þykir.

 

Dagur bókarinnar 23. apríl

Þennan dag mæta nemendur með uppáhalds bókina sína í skólann og lesa upp úr henni fyrir bekkjarsystkini sín. Í yngstu bekkjunum þurfa  kennarar líklega að lesa fyrir einhverja nemendur

 

Maí

 

Námsmat

Er um miðjan maí.    Nemendur Yngsta stigs og Miðstigs taka próf / kannanir í kennslu-stundum en nemendur Elsta stigs fá 4 prófadaga.

 

Vordagar

Vordagar eru síðustu kennsludagar skólaársins.  Þá sinna nemendur ýmsum verkefnum og þá aðallega utandyra eins umhverfishreinsun, kartöfluniðursetningu, trjáplöntun og fleiru sem til kann að falla.  Einnig er farið í ferðalag innan Austurlands, Balahlaupið fer fram sem og hjólreiðakeppni og svo er auðvitað grillað úti í Nýgræðingi.  Yngstu nemendurnir fá afhenta reiðhjólahjálma í boði Kiwanis og Eimskipa.

Kennarar skipuleggja dagana á kennarafundum / vinnufundum í byrjun maí.

 

Sigling um Norðfjarðarflóa

Sjötti bekkur fer í siglingu um Norðfjarðarflóa og tengist sú ferð náttúrufræðinámi þeirra.  Ferðin er í boði Fjarðabyggðar og í hana fara allir skólar í sveitarfélaginu.  Einn kennari frá Grunnskólanum á Stöðvarfirði fylgir með.

 

Dröfn

Nemendur 9. og 10. bekkjar fara annað hvert ár í stutta veiði- og fræðsluferð með hafrannsóknarskipinu Dröfn.  Aflann fá þeir að hirða og er hann kærkomin búbót.  A.m.k. tveir kennarar fara með.

 

Sundkennsla

Í lok maí fer fram sundkennsla og stendur hún yfir í fimm daga. 

 

 

Júní

 

Skólaferðalag

Annað hvert ár fara nemendur 8. og 9. bekkjar í ferðalag að undangenginni tveggja ára fjáröflun.  Foreldrar sjá um að stjórna fjáröfluninni en skólinn leggur til fararstjóra, sé þess óskað.  Síðustu skipti hefur verið farið í samfloti með nemendum frá Breiðdalsvík.  Yfirleitt er farið til fyrrverandi höfuðborgar Íslands, Kaupmannahafnar.

 

Starfsdagar

Starfsdagar að vori eru þrír.  Kennarar ljúka vorverkum – panta bækur og gera ítarlega grein fyrir námsefni liðins vetrar og framvindu í hverjum bekk fyrir sig og skilja eftir skýrslu í möppu á sameiginlegu heimasvæði kennara, K-drifi.  Hún heitir Námsefni.  Einnig eru skil á sjálfsmati vorannar.

 

 

 

 

 

 

 

Kennarafundir

 

Gert er ráð fyrir kennarafundum á stundatöflum kennara einu sinni í viku. Skólastjóri ákveður hvernig fundartíminn er nýttur. Skyldumæting er á kennarafundi. Fundunum er stjórnað af skólastjóra.  Fundargerðir eru skráðar í fundargerðabók að fornri hefð og skulu þær hefjast á veðurlýsingu. Á fundunum eru tekin fyrir ákveðin mál og að þeim loknum gefst kennurum kostur á að ræða önnur mál, ef einhver eru.

 

 

Sjálfsmatsvinna

 

Faghópar funda vikulega og boða hópstjórar til funda.  Skólastjóri úthlutar verkefnum í upphafi annar.  Hópar skila afrakstri í lok hvorrar annar.

 

 

Forfallaskráning / ástundun

 

Umsjónarkennari fylgist með að forföll og leyfi séu skráð í Mentor en mætingar, ástundun o.fl. er skráð af viðkomandi kennara.  Þegar forföll eru tilkynnt ber að skrá þau á töflu sem hangir við símann á kennarastofu.  Mánaðarlega senda umsjónarkennarar tölvupóst til foreldra þar sem þeir eru beðnir um að fara inn í Mentor, skoða ástundun og senda póst til baka. Þeir sem ekki eru með netfang, fái sent eintak heim sem þeir senda undirskrifað til baka. 

 

 

Símatsblöð

 

Verkmenntakennarar nota símatsblöð þar sem þeir skrá frammistöðu nemenda eftir hvern tíma. Sýnishorn aftast í möppu.

 

 

               Umsjónarkennari bekkja / bekkjar / stofu

 

Hlutverk umsjónarkennara er að hafa umsjón með bekk. Hann lýtur sömu lögum og aðrir kennarar en hefur fengið aukin verkefni í skólastarfinu. Fyrir það fær hann greitt sérstaklega.

Umsjónarkennari á að gæta hagsmuna umsjónarnemenda sinna innan skólans og leitast við að hafa alltaf sem besta vitneskju um líðan, nám og skólasókn þeirra. Nánari upplýsingar um skólasókn er að finna í liðnum forfallaskráning.

Í upphafi skólaárs á umsjónarkennari að kynna bekknum sínum agareglur skólans.

Umsjónarkennari hafi samband að minnsta kosti einu sinni á hvorri önn að fyrra bragði í foreldra út af einhverju jákvæðu sem varðar nemandann í skólastarfinu. Umsjónar-kennara ber að gæta þess að skrá hjá sér allt sem kemur fram í viðtölum við foreldra.

Umsjónarmenn stofa sjá til þess að stofan sé snyrtileg að vori.

 

Eftirfarandi umsjónarkennarar þurfa að huga að ákveðnum þáttum í skólastarfinu:

 

Umsjónarkennari / fagkennarar 4. bekkjar:

Samræmd próf í íslensku og stærðfræði

 

Umsjónarkennari 5. og 6. bekkjar:

Söfnun fyrir ABC hjálparstarf og Krabbameinsfélag Austurlands.

 

Umsjónarkennari / fagkennarar 7. – 8. bekkjar:

Samræmd próf í íslensku og stærðfræði

Sumarbústaðarferð að vori, annað hvert ár.

Stóra upplestrarkeppnin

 

Umsjónarkennari / fagkennarar 9. - 10. bekkjar:

Samræmd próf

Sumarbústaðarferð að hausti, annað hvert ár.

 

Skólastjóri:

Heimsókn í framhaldsskóla á Austurlandi

 

 

Sérkennsla

 

Grunnskólinn á Stöðvarfirði er í samstarfi við Skólaskrifsofu Austurlands. Þeir sérfræðingar sem við höfum aðgang að eru sálfræðingur, iðjuþjálfi, talmeinafræðingur, atferlisfræðingur og kennsluráðgjafi.  Solveig Friðriksdóttir er umsjónarmaður sérkennslu við skólann og er hún ásamt skólastjóra tengiliður við skrifstofuna.

Samkvæmt reglugerð nr. 386/1996 um sérfræðiþjónustu skóla, ber grunnskólum að kanna með reglubundnum og formlegum hætti hvaða nemendur eiga í erfiðleikum með nám.

Til þess að tryggja að nemendur skólans fái þjónustu og nám við hæfi tíðkast í  Grunnskólanum á Stöðvarfirði að leggja eftirfarandi próf / kannanir fyrir alla nemendur skólans:

 

Bekkur

Próf / kannanir

Tilgangur

Hver leggur fyrir

1. bekkur

Læsi – skimunarpróf

Að kanna læsi nem.

Umsjónarkennari

1. bekkur

Tove – Krogh

Þroskapróf

Umsjónarkennari

2. bekkur

Læsi/skimunarpróf

Að kanna læsi nem.

Umsjónarkennari

3. bekkur

Talnalykill

Stærðfræðiskimun

Umsjónarkennari

6. bekkur

Talnalykill

Stærðfræðiskimun

Umsjónarkennari

9. bekkur

GRP 14h

Greinandi ritmálspróf

Guðrún Ármannsdóttir

 

Í sumum prófunum / könnunum er fyrst lagt hóppróf fyrir alla nemendur en síðan þurfa þeir sem fá niðurstöðu undir ákveðinni mælitölu að taka einstaklingspróf. Prófin eru ýmist lögð fyrir af kennurum við skólann eða af starfsfólki Skólaskrifstofu Austurlands.

 

 

Frímínútur og gæsla

 

Fyrir hádegi eru tvennar frímínútur, hinar fyrri frá 09:20 – 09:40 og þær seinni frá 11:00 til 11:10.   Kennarar ásamt nemendum í ferðahópi sjá um gæslu í fyrri frímínútum en skólaliðar í þeim síðari.

Kennarar geta valið hvort þeir taki að sér gæslu.  Greitt er sérstaklega fyrir frímínútnagæslu.

Þeir ganga um skólalóðina og fylgjast með að allt fari fram eftir settum reglum.  Kennarar á vakt sjá einnig um að þoturössum, boltum, sippuböndum o.þh. sé skilað á sinn stað eftir hverjar frímínútur.

Ef skólastjóri ákveður að nemendur verði inni  vegna veðurs þá ber þeim sem eru í frímínútnagæslu að fylgjast með nemendunum inni.

Nemendur í ferðahópi skiptast á að sjá um gæslu ásamt kennara og sjá um leiki fyrir yngri nemendur í fyrri frímínútum. Þeir skili leikjaplani til skólastjóra á föstudögum.

 

 

 

 

 

 

Matar- og nestistímar

 

Boðið er upp á máltíðir í hádeginu en maturinn kemur frá Veitingastofunni Brekkunni.  Matseðlar eru sendir til skólastjóra í lok hvers mánaðar til yfirferðar.

Nemendur og kennarar sem ætla að borða í mötuneytinu þurfa að skrá sig í byrjun annar.  Þeir sem vilja skrá sig úr mat, verða að gera það fyrir 20. dag mánaðar og tekur þá úrsögn gildi um næstu mánaðarmót.  Hægt er að sækja um tímabundna niðurfellingu áskriftar ef um viku fjarveru er að ræða, t.d. veikindi eða leyfi.

Hægt er að kaupa tíu miða matarkort en tilkynna þarf að morgni ætli menn að nýta miða þann daginn.  Að öðrum kosti þarf að greiða fyrir máltíðina.

Nestistímar nemenda í 1. – 6. bekk eru frá kl. 09:40 – 09:55.   Nemendur skulu ekki neyta nestis í útifrímínútum.

Eldri nemendur snæða nestið sitt í frímínútum kl. 09:20.

Nemendum stendur til boða áskrift að ávöxtum og mjólk.

 

 

Forfallakennsla

 

Ef kennarar á Elsta stigi forfallast eru nemendur sendir heim en við forföll kennara yngri stiga er það háð mati hverju sinni.  Listi yfir forfallakennslu er hafður við forfallatöflu á kennarastofu.

 

 

Viðtalstími

 

Allir kennarar eru með einn 30 mín. viðtalstíma á viku.  Kennari skal vera við á þeim tíma.  Viðtalstíminn er settur inn í stundatöflu hvers kennara í upphafi skólaárs.

 

 

Áskriftir

 

 Grunnskólinn á Stöðvarfirði er áskrifandi að Skólavefnum (http://www.skolavefur.is/), rasmus.is og einnig að tímaritinu Lifandi vísindi.

 

 

Tölvuver

 

Útbúin er stundaskrá að hausti þar sem fastir tölvutímar eru settir.  Kennarar skulu skrá aðra tíma á Mentor undir liðnum tækjabókun.

 

Neysla matar og drykkjar er ekki leyfð við tölvurnar.

Nemendur geta haft samband við kennara utan þessara tíma til að vinna verkefni sem tengjast skólanum eða félagsmiðstöðinni.

 

 

 

 

 

 

Bókasafn

 

Almennings- og skólasafn  er staðsett á neðri hæð skólans og er opið þrisvar í viku á skólatíma.  Nemendur geta þess utan sjálfir fengið bækur eftir þörfum í tengslum við námið en á ábyrgð kennara.  Verða þeir sjálfir að standa skil á bókunum a.m.k. í eldri bekkjunum.  Í yngri bekkjum hafa kennarar umsjón með bókunum.  Kennarar hafa frjálsan aðgang að safninu á skólatíma.  Þeir verða þó að sjálfsögðu að standa skil á því sem þeir fá lánað og fylgja settum umgengnisreglum.

 

 

Íþróttakennsla

 

Íþróttakennsla fer fram utandyra í ágúst, september og maí en innandyra frá október til apríl.

 

 

Foreldrafélag

 

Foreldrafélag er starfrækt við skólann en í stjórn þess sitja fjórir foreldrar.  Nánari upplýsingar um foreldrafélagið er að finna á heimasíðu skólans.

 

 

Skólaráð

Við grunnskólann starfar skólaráð sem ætlað er að vera samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Það tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið.  Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda. Skólanefnd, sbr. 6. gr., getur með samþykki sveitarstjórnar falið skólaráðum einstakra skóla ákveðin verkefni þessu til viðbótar.

Í skólaráði eru: skólastjóri, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi starfsmanna, tveir fulltrúar nemenda, tveir fulltrúar foreldra og einn fulltrúi grenndarsamfélagsins.

 

Nemendaráð

 

Nemendaráð starfar við skólann og er skipað fimm fulltrúum nemenda frá 7. – 10. bekk.

 

 

Heimasíða

 

Skólinn heldur úti heimasíðu.  Kennarar setja inn fréttir og tilkynningar frá skólanum.  Þar má einnig finna skólanámskrá, nemendasíðu, foreldrasíðu, matseðil, upplýsingar um grunnskólann o.m.fl.

Handbók skólans

 

Á hverju hausti er gefin út handbók skólans.  Mikilvægt er að starfsfólk kynni sér efni hennar vel. 

 

 

Fréttabréf skólans

 

Fréttabréf skólans kemur út á hverju hausti og er það að finna á heimasíðu skólans.

 

 

Skóladagatal

 

Á hverju vori er gefið út nýtt skóladagatal en ákveðið samráð er haft við aðra skóla í Fjarðabyggð.  Skólastjóri leggur dagatalið fyrir foreldraráð og kennarafund.    Fræðsluráð þarf að samþykkja dagatalið áður en það er gert opinbert.

 

 

Samstarf við Tónlistarskóla

Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar

 

Grunnskólinn hefur átt gott samstarf við tónlistarskólann.  Nemendur hafa fengið að sækja svokallaða veltitíma, þar sem þeir fara úr kennslustundum, hálftíma í senn.  Tímarnir eru alltaf á sama degi en færast til milli vikna þannig að nemendur missi ekki alltaf sömu kennslustundirnar úr.  Tvennt er mikilvægt í þessu samstarfi, annars vegar það að starfið í grunnskólanum gengur alltaf fyrir, t.d. ef kennari er með próf á sama tíma og einnig það að nemendur verða sjálfir að gæta þess að vinna upp það sem þeir hafa misst úr.Tónlistarskólinn starfrækir forskóla fyrir nemendur 1. og 2. bekkjar og er námið þeim að kostnaðarlausu.

 

 

Brúum bilið

 

Brúum bilið er samstarfsverkefni milli grunnskólans og leikskólans Balaborgar.  Nemendur á elsta ári leikskólans heimsækja nemendur grunnskólans reglulega, sitja í kennslustundum og fara á bókasafnið.  Kennari yngsta stigs og leikskólastjóri skipuleggja starfið.  Nemendur yngsta stigs fara einnig í heimsóknir á leikskólann.

Auk þess hafa foreldrafélög skólanna haft samstarf t.d. við öskudagsskemmtun og jólaball og einnig þegar fengnir hafa verið listamenn með leiksýningar o.fl.

 

 

Samstarf við Umf. Súluna

 

Skólinn hefur átt gott samstarf við ungmennafélagið.  Nemendur skólans sækja íþróttatíma á vegum þess frá kl. 16:00 – 19:00 mánudaga til fimmtudaga.

 

 

 

 

Gagnlegar vefsíður fyrir kennara

 

Háskólinn á Akureyri

http://www.unak.is/template1.asp?PageID=246

 

Kennaraháskóli Íslands

http://www.khi.is/

 

Kennarasamband Íslands

http://www.ki.is/main/view.jsp?branch=337514

 

Menntamálaráðuuneytið

http://www.menntamalaraduneyti.is/

 

Mentor

http://www.mentor.is

 

Námsgagnastofnun

http://www.nams.is/vefur/

 

Námsmatsstofnun

http://www.namsmat.is/vefur/

 

Rasmus.is

http://www.rasmus.is/

 

Skólaskrifstofa Austurlands

http://www.ismennt.is/vefir/skolaust/skjol/stjorn.htm

 

Skólavefurinn

http://www.skolavefurinn.is/

 

 

 

Tölvur

 

Í skólanum er þráðlaust net.  Kennurum eru lagðar til fartölvur.  Hver kennari er með sitt svæði á tölvuneti skólans.  Einnig hafa þeir aðgang að sameiginlegu kennarasvæði og þeir hafa aðgang að nemendasvæðinu.

Inni á kennarasvæðinu eru margs konar gögn sem kennarar geta nýtt til kennslu og faglegra starfa eins og sjálfsmatsvinnu, námskrárgerðar.  Þar eru einnig ýmis konar eyðublöð og ljósmyndir úr skólastarfinu o.fl.

 

 

Símat

 

Þessi mappa þarf að vera í stöðugri endurskoðun.  Skipaður er hópur til þess arna á hverju hausti.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Útgefið í maí 2009

 

Grunnskólinn á Stöðvarfirði